top of page

Sjúkraþjálfun - 10 ástæður

Sjúkraþjálfarar hjálpa fólki á öllum aldri sem eiga við heilsubrest, meiðsli, fatlanir, langvinn veikindi eða skerta getu og færni til daglegra athafna. Sjúkraþjálfarar aðstoða einstaklinga að gera markmið sem miða að því að bæta færni og hvetja til breytinga í lífstíl sem geta komið í veg fyrir meiðsli eða veikindi og bæta lífsgæði og heilsu.


Sjúkraþjálfun er árangursrík meðferð gegn fjölda heilsufarsvandamála og felur í sér lítið inngrip samanborið við lyfjameðferðir og aðgerðir. Einnig er kostnaðarlega hagkvæmt að sinna endurhæfingu því eins og fram kemur í grein sem birtist nýverið í læknablaðinu þá getur hver króna sem sett er í endurhæfingu skilað sér áttfalt til baka. - https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/01/nr/7221


Afhverju er sjúkraþjálfun svona mikilvæg? Við tókum saman 10 ástæður sem okkur datt í hug og listinn er langt frá því tæmandi.


1. Til að draga úr eða losna við verki – Þjálfun og ýmsar meðferðir s.s. liðlosun, rafmagnsmeðferðir, teipun, nálastungur og mjúkvefjameðferðir geta dregið úr verkjum og bætt starfsemi vöðva og liða.

2. Minnka líkur á að þurfa aðgerð – Í mörgum tilfellum má komast hjá aðgerð vegna stoðkerfisverkja með sjúkraþjálfun. Ef aðgerð er nauðsynleg þá er mikill hagur í því að byrja í forendurhæfingu (e. prehabilitation) og þannig fara sterkari og betur undirbúin í aðgerð og eiga þá auðveldara með endurhæfingu í framhaldinu.

3. Auka hreyfigetu – Sjúkraþjálfun getur hjálpað þeim sem eiga í erfiðleikum með hreyfingu til dæmis að standa, ganga eða færa sig á milli staða heima. Styrktar-, jafnvægis-, og færniþjálfun getur bætt getu og færni. Sjúkraþjálfarar meta þörf á hjálpartækjum og útvega hjálpartæki sem aðstoð og hvetja einstaklinga til að halda áfram hreyfingu og/eða viðhalda færni til daglegra athafna.


4. Endurhæfing eftir heilablóðfall – Sjúkraþjálfun er nauðsynlegur liður í endurhæfingu eftir heilablóð ef einstaklingar fá líkamleg einkenni s.s. lömun eða máttminnkun, skert jafnvægi, úthaldsleysi eða aðra færniskerðingu. Sjúkraþjálfun miðar af því að sjálfstæði einstaklingsins sé sem mest og umönnunarþarfir séu sem minnstar.

5. Íþróttameiðsli og önnur slys– Sjúkraþjálfarar eru sérfræðingar í hreyfingu og hafa þekkingu á því hvernig mismunandi hreyfingar og álag hafa áhrif á vefi líkamans. Mikilvægt er að greina vandamálið rétt, meta alvarleika og horfur. Í flestum tilfellum þarf að fylgja sérhæfðri endurhæfingaráætlun, stundum þarf reglulega meðferð og svo er eftirfylgni mikilvæg til að meta hvenær endurkoma til íþrótta eða starfa er æskileg.


6. Bæta jafnvægi og koma í veg fyrir föll – Sjúkraþjálfarar meta jafnvægi og fallhættu einstaklinga og útvega þjálfun í öruggu umhverfi sem reynir á og bætir jafnvægi og samhæfingu. Sjúkraþjálfarar útvega einnig hjálpartæki sem geta reynst nauðsynleg. Sjúkraþjálfarar sinna einnig meðferð vegna vandamála í innra eyra.

7. Meðferð við sykursýki og æðasjúkdómum – Þjálfun getur stutt við stjórnun á blóðsykri hjá einstaklingum með sykursýki og unnið gegn hrörnun í æðakerfinu. Sjúkraþjálfarar aðstoða einnig með fræðslu og ráðlegginum um umönnum á fótum vegna dofa eða skynskerðingar. Mikilvægt er að vinna gegn vandamálum sem geta komið seinna á lífsleiðinni.

8. Aldurstengt vandamál – Sjúkraþjálfarar hjálpa draga úr færniskerðingu vegna aldurstengdra vandamála svo sem: slit í liðum, endurhæfing eftir liðskiptaaðgerðir, beinþynning, jafnvægisleysi, vöðvarýrnun og fleira.


9. Meðferð við hjarta- og lungnasjúkdómum – Einstaklingar fara í hjartaendurhæfingu eftir hjartaáfall eða –aðgerð og þurfa oft frekari þjálfun ef skerðing er á færni til daglegra athafna. Sama á við um einstaklinga með lungnasjúkdóma. Sjúkraþjálfun getur bætt lífsgæði og úthald með þjálfun og öðrum úrræðum.


10. Kvenn- og karlheilsa – Sjúkraþjálfarar geta aðstoðað við ýmis vandamál tengd kvenn- og karlheilsu. Hvort sem það er á meðgöngu, eftir fæðingu, eftir brjóstakrabbamein, verkir í grindarbotni, þvagleki, þvagtregða og margt fleira. Margir sjúkraþjálfarar sérhæfa sig í slíkum vandamálum. Við getum mælt með fræðslu frá kollegum okkar hjá Hraust þjálfun fyrir fræðslu um kvennheilsu og Neðanbeltis fyrir fræðslu um karlheilsu.





Comentarios


bottom of page